Aix, lið Kristjáns Arnar Kristjánssonar landsliðsmanns í handknattleik, missteig sig heldur óvænt í efstu deildinni í Frakklandi í kvöld.
Aix hefur átt afar góðu gengi að fagna í vetur en liðið er nýliði í efstu deild og er í 3. sæti. Aix mátti hins vegar sætta sig við tap á heimavelli gegn Chartres sem er í 11. sæti og hafði einungis unnið fjóra leiki af þrettán fram að þessu. Aix vann hins vegar tíu af fyrstu þrettán.
Chartres vann 25:24 en Kristján Örn skoraði þrjú mörk úr skyttustöðunni hægra megin. Kristján missti úr á dögunum vegna meiðsla en er kominn á ferðina á ný.