Alfredo Quintana, markvörður portúgalska landsliðsins í handknattleik og Porto, er látinn aðeins 32 ára gamall.
Porto tilkynnti um andlátið á samfélagsmiðlum í dag.
Eins og mbl.is greindi frá á dögunum hneig Quintana niður á æfingu með Porto í Portúgal. Fékk hann hjartastopp og var í lífshættu upp frá því.
Alfredo Quintana var vel þekktur hjá íslensku handboltaáhugafólki enda hafa landslið Íslands og Portúgals mæst ítrekað. Liðin mættust þrívegis í janúar. Tvívegis í undankeppni EM. Annars vegar í Portúgal og hins vegar á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þá mættust liðin á HM í Egyptalandi en einnig á EM í Svíþjóð í janúar í fyrra.
Quintana lék allan sinn meistaraflokksferil með Porto og spannaði sá ferill ellefu ár. Hann lék 56 A-landsleiki fyrir Portúgal og hefur átt sinn þátt í því að Portúgal er á meðal tíu bestu landsliða í heimi. Þá er vert að geta þess að Porto er eitt sextán liða sem leika í Meistaradeild Evrópu, sterkustu félagsliðakeppni í íþróttinni.