Gamla ljósmyndin: Hvernig fór hann að þessu?

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði hreint lygilegt mark beint úr aukakasti fyrir KA gegn Aftureldingu í KA-heimilinu í apríl árið 2001. Hafði markið mikil áhrif á framgang Íslandsmótsins í handknattleik því KA sigraði eftir tvíframlengdan leik og komst í úrslitarimmuna gegn Haukum. 

Leikurinn var þar af leiðandi í undanúrslitum Íslandsmótsins. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma 20:20. Guðjón jafnaði fyrir KA þegar leiktíminn var liðinn í fyrri framlengingunni og einungis aukakastið var eftir. KA sigraði 29:28 eftir síðari framlenginguna. 

Á myndinni sést sjónarhorn Guðjóns þegar hann stendur frammi fyrir því að taka aukakastið. Fyrir framan hann standa sex stæðilegir leikmenn Aftureldingar. Frá vinstri: Þorkell Guðbrandsson, Páll Þórólfsson, Haukur Sigurvinsson, Magnús Már Þórðarson, Bjarki Sigurðsson og Alexei Trufan. Fyrir aftan þá stendur í markinu Reynir Þór Reynisson. 

Guðjóni tókst að koma boltanum framhjá varnarveggnum hægra megin frá sér séð og í fjærhornið. 

Myndina tók Skapti Hallgrímsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Birtist hún í Morgunblaðinu þriðjudaginn 24. apríl 2001 ásamt fleiri myndum af atvikinu. Þar sást einnig að Guðjón steig á punktalínuna með hægri fæti og því hefði markið ekki átt að standa samkvæmt reglunum. 

Guðjón Valur Sigurðsson átti ævintýralegan feril og væri of langt mál að rekja öll hans afrek hér. Hér heima lék hann með Gróttu, Gróttu/KR og KA áður en hann hélt í atvinnumennskuna og lék hann erlendis í tvo áratugi. Varð hann landsmeistari í Þýskalandi, Danmörku, Frakklandi og á Spáni. Varð hann Evrópumeistari með Tusem Essen og Barcelona. Guðjón var lykilmaður í liði Íslands sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og til bronsverðlauna á EM í Austurríki 2010. 

Guðjón Valur var valinn leikmaður ársins í Þýskalandi árið 2006 og sama ár hlaut hann sæmdarheitið íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. 

Guðjón lagði skóna á hilluna sumarið 2020 og stýrir nú liði Gummersbach í Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert