ÍBV vann sterkan 21:20-sigur á Val í Olísdeild kvenna í handbolta í Origo-höllinni á Hlíðarenda í dag. Leikurinn var æsispennandi og gat Valur jafnað metin undir lokin en það tókst ekki.
ÍBV byrjaði betur og komst í 3:1 og voru Eyjakonur með frumkvæðið stærstan hluta fyrri hálfleiks. Valsliðið var þó ekki langt undan og var staðan í hálfleik 12:11.
Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og ÍBV skrefinu á undan. Staðan var 21:19 þegar átta mínútur voru eftir, en Valskonur náðu aðeins að skora eitt mark gegn engu á lokakaflanum og ÍBV fagnaði góðum sigri.
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði sjö mörk fyrir ÍBV á meðan Þórey Anna Ásgerisdóttir gerði sex fyrir Val.
Valur er í þriðja sæti með tíu stig, en liðið hefur nú leikið fjóra leiki í röð án sigurs og tapað síðustu tveimur. ÍBV er í sjötta sæti með níu stig.