Hægri skyttan Rúnar Kárason hefur skrifað undir þriggja ára samning við ÍBV. Hann gengur til liðs við félagið í sumar að loknu núverandi leiktímabili með Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni.
Ljóst er að um gífurlegan liðsstyrk er að ræða enda Rúnar þaulreyndur atvinnu- og landsliðsmaður með 100 A-landsleiki að baki.
Hann hefur verið einn sterkasti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu með 114 mörk þar sem hann er í sjöunda sæti á lista yfir markahæstu menn og með 74 stoðsendingar að auki, þar sem hann er í fjórða sæti í deildinni.
Rúnar er uppalinn í Fram en hefur leikið í atvinnumennsku samfleytt frá árinu 2009, mestmegnis í þýsku 1. deildinni. Þar hefur hann leikið með Füchse Berlín, Bergischer, Grosswallstadt, Rhein-Neckar Löwen og Hannover-Burgdorf. Árið 2018 söðlaði hann svo um og samdi við Ribe-Esbjerg, núverandi lið sitt.