Tomas Svensson markmannsþjálfari hefur óskað eftir því að láta af störfum sínum með A-landsliði karla og hefur Handknattleikssamband Íslands orðið við ósk hans. Tomas hefur starfað með Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara frá því að hann tók við liðinu í febrúar árið 2018.
Frá þessu er greint á heimasíðu HSÍ.
„Það hefur verið mikill heiður fyrir mig að fá að starfa fyrir HSÍ og íslenska landsliðið. Ég á eftir að sakna samstarfsins við Guðmund, strákana í landsliðinu, starfsfólk landsliðsins og HSÍ,“ sagði Svensson í samtali við heimasíðu HSÍ.
Var honum jafnframt þakkað þar fyrir störf sín: „HSÍ þakkar Tomas fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur.“
Verður markmannsþjálfari sænska landsliðsins
Þegar er ljóst hvað Svensson mun taka sér fyrir hendur þar sem hann snýr nú aftur í heimahagana og tekur við stöðu markmannsþjálfara sænska karlalandsliðsins í handknattleik. Hann tekur við stöðunni af Mats Olsson, sem lék 297 landsleiki fyrir Svíþjóð á árunum 1979 til 1997 og vann á þeim tíma EM einu sinni, HM einu sinni og tvö Ólympíusilfur.
Svensson er sjálfur sannkölluð handboltagoðsögn og lék 327 landsleiki fyrir Svíþjóð á 20 ára tímabili, frá 1988 til 2008. Hann vann EM þrisvar, HM tvisvar og nældi sér auk þess í þrjú Ólympíusilfur.