Vilhelm Poulsen var markahæstur Framara þegar liðið vann 29:24-sigur gegn Aftureldingu í úrvalsdeild karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.
Vilhelm skoraði sex mörk úr níu skotum en leiknum lauk með fimm marka sigri Framara, 29:24.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en eftir því sem leið á náðu Framarar yfirhöndinni og þeir leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 18:15.
Mosfellingar náðu að jafna metin þegar tíu mínútur voru til leiksloka í 21:21 en lengra komust þeir ekki og Framarar sigu hægt og rólega fram úr á lokamínútunum.
Lárus Helgi Ólafsson átti stórleik í marki Framara, varði 15 skot, og var með 40% markvörslu.
Blær Hinriksson var markahæstur í liði Aftureldingar með sjö mörk og Guðmundur Árni Ólafsson skoraði sex mörk.
Fram er með 14 stig í sjötta sæti deildarinnar en Afturelding er í því fimmta með 15 stig.