Rúnar Kárason var markahæstur í liði Ribe-Esbjerg þegar liðið tapaði með eins marks mun gegn Bjerringbro-Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag.
Leiknum lauk með 29:28-sigri Bjerringbro-Silkeborg en Rúnar skoraði sex mörk og þá gaf hann einnig fjórar stoðsendingar.
Ribe-Esbjerg leiddi stærstan hluta leiksins en Öris Nielsen skoraði sigurmarkið þegar tvær sekúndur voru til leiksloka og þar við sat.
Daníel Þór Ingason skoraði fjögur mörk fyrir Ribe-Esbjerg sem er í níunda sæti deildarinnar með 18 stig.