Egill Magnússon var markahæstur FH-inga þegar liðið fékk Þór í heimsókn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með níu marka sigri FH, 30:21, en Egill Magnússon skoraði sex mörk fyrir FH.
Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínútur leiksins en þá hrukku Hafnfirðingar í gang og leiddu með átta mörkum í hálfleik, 18:10.
Þórsurum tókst að minnka forskot FH í fimm mörk í upphafi síðari hálfleiks en lengra komust þeir ekki og FH fagnaði öruggum sigri.
Einar Rafn Eiðsson skoraði fimm mörk fyrir FH og Phil Döhler var með 36% markvörslu og varði tólf skot.
Ihor Kopyshynskyi og Karolis Stropus voru markahæstir Þórsara með sex mörk hvor en liðið er í ellefta sæti deildarinnar með 4 stig.
FH er með 18 stig í öðru sætinu, einu stigi minna en Haukar, en Haukar eiga leik til góða á FH.