Vignir Stefánsson skoraði sex mörk fyrir Val þegar liðið heimsótti ÍR í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Austurberg í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.
Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks og var staðan 7:7 þegar tíu mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik. Eftir það settu Valsmenn í fluggírinn og þeir leiddu með átta mörkum í hálfleik, 17:9.
Valsmenn náðu mest tíu marka forskoti, 22:12, og fögnuðu öruggum 30:22-sigri í leikslok.
Anton Rúnarsson og Róbert Aron Hostert skoruðu fimm mörk hvor fyrir Valsmenn en hjá ÍR var Gunnar Valdimar Johnsen atkvæðamestur með sjö mörk.
Valsmenn eru með 17 stig í þriðja sæti deildarinnar en ÍR er á botni deildarinnar án stiga.