Handknattleikskonan Andrea Jacobsen lék sinn fyrsta leik í 13 mánuði í gærkvöldi er hún lék með Kristianstad gegn Önnered í sænsku úrvalsdeildinni. Andrea sleit krossband í hné í febrúar á síðasta ári og hefur verið lengi frá keppni vegna þessa.
Hún hefur verið á skýrslu í tveimur síðustu leikjum en ekki komið við sögu fyrr en í gær í 30:20-útisigri. Skoraði hún þrjú mörk í fimm skotum. Einn leikur er eftir af deildarkeppninni og tekur síðan við úrslitakeppni þar sem átta efstu liðin berjast um sænska meistaratitilinn.
Kristianstad er í fimmta sæti og öruggt með sæti í úrslitakeppninni.