Meiðsli Darra Aronssonar, handknattleiksmanns úr Haukum, eru ekki eins alvarleg og óttast var en hann meiddist í leik Hafnarfjarðarliðsins gegn KA á Akureyri á dögunum.
Talin var mikil hætta á að krossband í hné hefði slitnað en Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka og faðir Darra, segir í viðtali við handbolti.is í dag að í ítarlegri læknisskoðun hafi krossbandsslit verið slegið út af borðinu, sem sé mikill léttir fyrir alla.
Aron segir að næstu tvær til þrjár vikur muni skera úr um framhaldið en talið sé að um geti verið að ræða skemmd í liðþófa eða brjóski í hnénu.
Darri hefur komið mjög öflugur inn í lið Hauka í vetur og var búinn að skora 27 mörk í sjö leikjum í Olísdeild karla þegar hann meiddist.