Valsarar rótburstuðu botnliðið

Thea Imani Sturludóttir sækir að marki FH á Hlíðarenda í …
Thea Imani Sturludóttir sækir að marki FH á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur vann 33:14-stórsigur á botnliði FH er liðin mættust í Origo-höllinni í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld. Munurinn var sex mörk í hálfleik en eftir hlé færðu heimakonur sig upp á skaftið.

Leikurinn var sá fyrsti í 12. umferð Íslandsmótsins og fara Valsarar upp í 3. sæti með sigri, eru nú með 15 stig, stigi á eftir Fram og tveimur á undan ÍBV en bæði lið eiga leik til góða. Lilja Ágústsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Val og þær Auður Ester Gestsdóttir, Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Elín Rós Magnúsdóttir skoruðu allar fjögur. Þá átti Saga Sif Gísladóttir fínan leik í markinu, varði tíu af 21 skoti sem hún fékk á sig.

FH er langneðsta lið deildarinnar, enn án stiga eftir 12 leiki. Hildur Guðjónsdóttir skoraði sjö mörk fyrir gestina en næst var Freydís Jara Þórsdóttir með þrjú. Valur heimsækir topplið KA/Þórs til Akureyrar í næstu umferð en FH fær Fram í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert