Alfreð vill færri lið

Alfreð Gíslason vill fækka liðum í þýsku 1. deildinni.
Alfreð Gíslason vill fækka liðum í þýsku 1. deildinni. AFP

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, vill fækka liðum í efstu deild þar í landi. Hann segir það bitna á þýska landsliðinu hve þétt er spilað í deildinni.

Liðin í þýsku 1. deildinni hafa verið 18 undanfarin ár en þeim var fjölgað í 20 þar sem ekki tókst að ljúka seinasta tímabili vegna kórónuveirunnar. Alfreð vill að þeim verði fækkað niður í 16.

„Deild með 16 liðum er best að mínu mati og við ættum að stefna að því. Ég hef kvartað yfir því í 20 ár hve mikið álag er á leikmönnum og það hefur aðeins aukist. Í öðrum deildum eru liðin 12-14 og þá gefst meiri tími í landsliðið,“ sagði Alfreð við Berliner Morgenpost.

Þýskaland leikur við Svíþjóð, Slóveníu og Alsír á næstu dögum þar sem sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó er undir, en tvö efstu lið riðilsins fara á leikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert