Fram komst í kvöld á topp úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildarinnar, með afar öruggum sigri á Stjörnunni í Safamýri, 29:19.
Fram er þá með 18 stig, einu stigi meira en KA/Þór sem á leik til góða gegn HK á morgun. Valur er síðan með 15 stig í þriðja sætinu. Tveimur umferðum er ólokið og tvö efstu liðin fara beint í undanúrslit Íslandsmótsins.
Stjarnan er með 10 stig í sjötta sætinu, stigi á undan HK, en liðin í þriðja til sjötta sæti fara í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Leikurinn var nokkuð jafn framan af en eftir að Fram breytti stöðunni úr 9:7 í 13:7 á fjögurra mínútna kafla voru möguleikar Garðbæinga úr sögunni. Staðan var 16:9 í hálfleik og Fram var komið í 23:13 þegar tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleik. Þar með var formsatriði fyrir Safamýrarliðið að innbyrða sigurinn.
Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 7, Steinunn Björnsdóttir 5, Karólína Bæhrenz 5, Guðrún Erla Bjarnadóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 3, Harpa María Friðgeirsdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 17 skot og var með 51,5 prósent markvörslu. Sara Sif Helgadóttir varði 2 skot.
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 5, Helena Rut Örvarsdóttir 3, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Anna Karen Hansdóttir 1, Karen Tinna Demian 1.
Tinna Húnbjörg Einarsdóttir varði 4 skot og Heiðrún Dís Magnúsdóttir 2.