Einar Jónsson verður næsti þjálfari karlaliðs Fram í handknattleik og tekur við af Sebastian Alexanderssyni í sumar.
Þetta staðfestu Framarar á Facebook-síðu félagsins í kvöld en fyrr í dag kom fram að þeir hefðu ákveðið að segja upp samningi Sebastians frá og með komandi sumri. Hann gerði þriggja ára samning við Fram fyrir yfirstandandi tímabil.
Einar hefur verið Framari frá unga aldri og þjálfaði bæði kvenna- og karlalið félagsins um árabil. Kvennaliðið varð bikarmeistari undir hans stjórn árin 2010 og 2011 og karlaliðið Íslandsmeistari árið 2013.
Þá hefur Einar þjálfað hjá Stjörnunni og Gróttu, var með kvennalið Molde í Noregi á árunum 2013-2015 og bæði kvenna- og karlalið H71 í Færeyjum. Í vetur hefur hann þjálfað norska C-deildarliðið Bergsøy.