Haukar og ÍBV skildu jöfn, 21:21, í miklum spennuleik í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.
ÍBV er þá með 14 stig í fjórða sæti þegar tvær umferðir eru eftir og skrefi nær því að fá heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Haukar eru með 11 stig í fimmta sætinu og eru í hörðum slag um að vera í hópi sex efstu liða og komast í úrslitakeppnina.
Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn, og í eina skiptið sem var tveggja marka munur var staðan 3:1 fyrir Hauka. Staðan var 13:13 í hálfleik. Eyjakonur virtust komnar með tök á leiknum þegar þær skoruðu fjögur mörk í röð og komust í 19:16 en seigar Haukakonur gáfu sig ekki og jöfnuðu í 19:19 þegar níu mínútur voru eftir af leiknum.
Í stöðunni 21:21 fór hver sóknin af annarri í súginn hjá báðum liðum en þær Darja Zecevic í marki ÍBV og Annika Petersen í marki Hauka vörðu í gríð og erg.
Boltinn var síðan dæmdur af ÍBV þegar 14 sekúndur voru eftir. Haukar tóku leikhlé fyrir síðustu sóknina. Ragnheiður Ragnarsdóttir fór inn úr þröngu færi í hægra horninu á síðustu sekúndunni og skaut í stöng. Jafntefli varð því niðurstaðan.
Mörk Hauka: Sara Odden 5, Berta Rut Harðardóttir 4, Rakel Sigurðardóttir 3, Karen Helga Díönudóttir 3, Birta Lind Jóhannsdóttir 3, Hekla Rún Ámundadóttir 2, Guðrún Jenný Sigurðardóttir 1.
Annika Petersen varði 17 skot og var með 44,7 prósent markvörslu.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 5, Birna Berg Haraldsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 3, Karolina Olszowa 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Lina Cardell 1.
Darja Zecevic varði 13 skot og var með 50 prósent markvörslu. Marta Wawrzykowska varði 2 skot.