Austurríska handknattleiksfélagið Alpla Hard skýrði frá því í dag að Hannes Jón Jónsson tæki við þjálfun karlaliðs félagsins frá og með komandi sumri.
Hannes er sem stendur þjálfari þýska B-deildarliðsins Bietigheim en hættir þar að þessu keppnistímabili loknu. Skýrt var frá því á dögunum að samningur hans þar yrði ekki framlengdur og Spánverjinn Iker Romero myndi taka við þjálfun liðsins.
Hannes kannast vel við sig í Austurríki eftir að hafa byrjað þar þjálfaraferilinn sem spilandi þjálfari West Wien árið 2015 en þaðan fór hann til Þýskalands árið 2019.
Hannes er 41 árs og lék á sínum tíma 44 landsleiki fyrir Íslands hönd, á árunum 2007 til 2012. Hann lék með Val og ÍR á Íslandi, spilaði fyrst erlendis með Oviedo á Spáni árið 2002 en var síðan erlendis frá árinu 2005. hann lék með Ajax í Danmörku, Elverum í Noregi, Hannover-Burgdorf og Eisenach í Þýskalandi áður en hann fór til West Wien.
Alpla er frá bænum Hard í vestasta hluta Austurríkis, við þýsku landamærin. Liðið hefur sex sinnum orðið austurrískur meistari, fyrst árið 2003 og síðast árið 2017. Alpla er í þriðja sæti A-deildarinnar þegar sjálfri deildakeppninni er sama og lokið og er á leið í úrslitakeppni sex efstu liðanna um meistaratitilinn.