Dönsku heimsmeistararnir í handknattleik karla máttu þola tap í fyrsta leiknum eftir að þeir lyftu heimsbikarnum í Egyptalandi í janúarmánuði.
Þeir sóttu Norður-Makedóníu heim til Skopje í undankeppni Evrópumótsins og máttu þola óvæntan ósigur, 33:29. Staðan var 17:13 í hálfleik og Danir náðu aldrei að ógna forskoti heimamanna í seinni hálfleiknum.
Staðan var 32:26 þegar fjórar mínútur voru eftir, Danir skoruðu þá þrjú mörk í röð en voru endanlega rotaðir þegar hinn fertugi Kiril Lazarov þrykkti boltanum í danska markið rúmri mínútu fyrir leikslok, 33:29.
Dejan Manaskov, Filip Kuzmanovski og Filip Taleski skoruðu 5 mörk hver fyrir Norður-Makedóníu, Kiril Lazaraov og Stojanche Stoilov 4 hvor. Mikkel Hansen var allt í öllu hjá Dönum og skoraði 11 mörk.
Norður-Makedónía er þar með komin með annan fótinn í lokakeppni EM 2022 og er með fullt hús eftir fyrri umferðina, sex stig. Danir eru með fjögur stig, Svisslendingar tvö og Finnar reka lestina án stiga.
Sviss vann auðveldan útisigur á Finnlandi, 32:19, í fyrri leik riðilsins í Vantaa í Finnlandi fyrr í dag.