Hægri skyttan Birkir Benediktsson, leikmaður handknattleiksliðs Aftureldingar, sleit hásin í annað sinn á tímabilinu á æfingu á þriðjudag. Birkir hefur ekkert spilað á tímabilinu eftir að hafa slitið sömu hásin í september síðastliðnum.
Frá þessu er greint á Vísi. Vonir höfðu staðið til þess að Birkir sneri aftur á völlinn innan skamms en ógæfan dundi yfir að nýju á æfingu Aftureldingar á þriðjudag.
Birkir hafði spilað vel á síðasta tímabili og skorað 108 mörk í 20 leikjum í Olísdeildinni áður en hún var flautuð af vegna kórónuveirufaraldursins. Hann meiddist svo á æfingu í september skömmu áður en flautað var til leiks á núverandi tímabili.
Ekki er ljóst hvenær Birkir snýr aftur á völlinn en þó er ljóst að hann mun ekkert koma til með að spila á þessu tímabili.