Hægriskyttan Birkir Benediktsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild Aftureldingar. Birkir sleit hásin í annað sinn á tímabilinu í vikunni og rann handknattleiksdeildinni blóðið til skyldunnar að standa þétt við bakið á honum með því að bjóða honum nýjan samning.
Þetta kemur fram á Handbolta.is. Í tilkynningu sem vefnum barst frá Hauki Sigurvinssyni, formanni meistaraflokksráðs Aftureldingar, segir:
„Birkir hefur gengið í gegnum erfið meiðsli upp á síðkastið sem hann mun sigrast á. Afturelding mun standa þétt við bakið á Birki í þeirri vegferð sem fram undan er og hlökkum við mikið til að sjá hann stíga á völlinn aftur þegar sá tími kemur.“
Birkir hefur og mun ekkert spila á núverandi tímabili eftir að hafa fyrst slitið hásin í september síðastliðnum og svo aftur síðastliðinn þriðjudag.