Jafnt hjá Þjóðverjum og Svíum

Úr leik Þýskalands og Svíþjóðar í dag.
Úr leik Þýskalands og Svíþjóðar í dag. AFP

Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, og Svíþjóð gerðu 25:25-jafntefli í hörkuleik í riðli 3 í undankeppni  karla í handknattleik fyrir Ólympíuleikana í Tókýó í Japan í sumar.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og fór Þýskaland með eins marks forystu, 14:13, í hálfleik.

Svíar gáfust aldrei upp og náðu að jafna metin í 25:25 áður en yfir lauk.

Um var að ræða fyrsta leikinn í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana, en leikið er í þremur riðlum þar sem 12 lið freista þess að ná síðustu sex sætunum sem eru í boði.

Þýskaland og Svíþjóð eru í riðli með Slóveníu og Alsír í riðli 3.

Í riðli 1 eru Noregur, Suður-Kórea, Brasilía og Síle og í riðli 2 eru Króatía, Frakkland, Portúgal og Túnis.

Fyrstu umferð riðlakeppninnar lýkur strax í dag með fimm leikjum til viðbótar. Slóvenía mætir Alsír, Noregur mætir Brasilíu, Síle mætir Suður-Kóreu, Túnis mætir Portúgal og Frakkland mætir Króatíu í stórleik kvöldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert