KA/Þór tyllti sér á topp úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, með 29:23-sigri á HK í frestuðum leik úr tólftu umferðinni í kvöld.
Leiknum var frestað tvo daga í röð vegna ófærðar en gat loksins farið fram í Kórnum í kvöld. Gríðarlegur munur var á liðunum eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og voru gestirnir með níu marka forystu í hléinu, 15:6. Munurinn varð svo mestur 11 mörk áður en heimakonum tókst að laga stöðuna undir lokin, enda úrslitin þá löngu ráðin. Rut Jónsdóttir átti stórleik fyrir KA/Þór, skoraði níu mörk úr tíu skotum en næst var Aldís Ásta Heimisdóttir með átta mörk fyrir gestina. Hjá HK var Jóhanna Margrét Sigurðardóttir markahæst með sex mörk.
Með sigrinum endurheimtu norðankonur toppsætið og sitja þar nú með 19 stig eftir 12 leiki. Framarar eru með 18 stig í öðru sætinu og Valur í því þriðja með 15 stig. Tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.