Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, segir allt hafa verið gert til þess að reyna að láta það ganga upp að Karen Knútsdóttir, leikreyndasti leikmaður liðsins, gæti spilað með liðinu í undankeppni HM 2021 í mánuðinum, en það hafi einfaldlega ekki verið hægt.
„Við vorum vel meðvituð um að þetta gæti farið svona. Við vorum að reyna að púsla þessu þannig saman að það myndi henta. Að hún myndi ná ferðalaginu á kannski þægilegri máta heldur en raunin reyndist vera. Eðlilega gekk þetta bara ekki upp. Við reyndum allt, Karen reyndi allt en svona er þetta bara. Hún er með lítið kríli og þar af leiðandi var þetta aðeins erfiðara við að eiga,“ sagði Arnar fyrir æfingu íslenska landsliðsins í TM-höllinni í Garðabænum í gær.
Karen, sem leikur með Fram hér á landi, dró sig úr leikmannahópnum í gær og líkt og Arnar bendir á var það vegna þess að hún er með aðeins fjögurra mánaða barn heima við.
„Við vorum samt sem áður að gæla við það að hún kæmi út seinna og það var planið en það var þegar upp var staðið alveg galið. Þetta voru einhverjir fjórir leggir og tæpur sólarhringur þannig að þetta var bara alveg vonlaust,“ útskýrði Arnar.
Æfingin í gær var liður í undirbúningi fyrir undankeppnina, sem fer fram í Norður-Makedóníu í næstu viku, dagana 19. til 21. mars. Hópurinn heldur utan í dag.
Auk Karenar verður Díana Dögg Magnúsdóttir, leikmaður BSV Sachsen Zwickau í Þýskalandi, ekki með í verkefninu í Norður-Makedóníu vegna strangra sóttvarnareglna í Þýskalandi.
Arnar sagði þó stöðuna á liðinu góða. „Af þeim leikmönnum sem við erum með hérna er hún almennt góð. Frá síðasta hópi sem við völdum fyrir síðasta mótsleik eru töluvert miklar breytingar en það er bara eins og það er. Þær sem eru hér í dag eru almennt séð í góðu standi,“ sagði hann, en íslenska liðið hefur ekki leikið keppnisleik síðan í undankeppni EM 2020 í lok september árið 2019.
Ísland er í riðli 2 í undankeppni HM með heimakonum í Norður-Makedóníu, ásamt Litháen og Grikklandi. Arnar metur möguleikana á að komast áfram í umspil um laust sæti á HM sem ágæta.
„Ég geri það. Við erum að fara í hörkukeppni. Þetta eru góð lið sem við erum að fara að spila á móti. Norður-Makedónarnir eru til dæmis með öflugt lið. Litháirnir eru líka með gott lið sem er í stöðugri bætingu og svo það lið sem maður var fyrir fram ekkert alveg viss um, Grikkirnir, að það væri þægilegt að fá þá í millileiknum, þær eru bara með hörkulið líka.
Þær eru til dæmis með leikmann [Lamprini Tsakalou] sem er að spila með króatísku meisturunum í Meistaradeildinni og hefur verið að standa sig vel þar. Þannig að þetta er hörkuverkefni og verður erfitt,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is.