Dönsku heimsmeistararnir í handknattleik karla unnu yfirburðasigur á Norður-Makedóníu í Álaborg í dag, 37:21, í undankeppni Evrópumótsins og hefndu þar með fyrir óvænt tap í fyrri leik liðanna í Skopje á dögunum.
Kiril Lazarov, stórskyttan fræga, stýrði Norður-Makedóníu í fyrsta skipti í fyrri leiknum sem landsliðsþjálfari og skoraði sjálfur fjögur mörk í góðum sigri, 33:29.
Hann lét sér hinsvegar nægja að stjórna liðinu af bekknum í Álaborg í dag og sá lærisveina sína tekna í kennslustund af heimsmeisturunum. Staðan var 17:10 í hálfleik og Danir gerðu 20 mörk gegn 11 í seinni hálfleiknum.
Mathias Gidsel skoraði 7 mörk fyrir Dani, Henrik Toft Hansen 5 og þeir Mikkel Hansen og Mads Mensah 4 hvor en Filip Kuzmanovski skoraði 5 mörk fyrir Norður-Makedóníu.
Liðin eru bæði með 6 stig í riðlinum og Sviss er með 4 stig eftir sigur á Finnum, 32:30, í dag. Finnar eru án stiga. Tvær umferðir eru eftir en Danir og Norður-Makedónar eru nánast örugg um sæti á EM því auk þess sem tvö efstu liðin fara í lokakeppnina þá komast fjögur lið með bestan árangur í þriðja sæti einnig áfram.