Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í Sachsen Zwickau eru á toppi þýsku B-deildarinnar í handknattleik eftir stórsigur í lykilleik á útivelli í gær.
Sachsen vann þá Herrenberg með miklum yfirburðum, 37:22, en þær tölur koma verulega á óvart því liðin voru jöfn á toppnum fyrir leikinn, ásamt Füchse Berlín, en þessi þrjú lið eru í hörðum slag um sæti í efstu deild.
Díana skoraði þrjú mörk í leiknum og Sachsen Zwickau og Füchse Berlín eru nú með 33 stig í tveimur efstu sætunum en Herrenberg er með 30 stig í þriðja sætinu. Füchse hefur leikið einum leik meira en hin tvö liðin.