Erlingur kominn með annan fótinn á EM

Erlingur Richardsson er landsliðsþjálfari Hollendinga.
Erlingur Richardsson er landsliðsþjálfari Hollendinga. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson steig stórt skref í átt að því að koma hollenska karlalandsliðinu í handknattleik í lokakeppni Evrópumótsins í dag þegar það vann gríðarlega mikilvægan útisigur á Pólverjum, 27:26.

Mikil spenna var í leiknum í Wroclaw frá upphafi til enda og staðan var 11:11 í hálfleik. Jafnt var á nær öllum tölum í síðari hálfleiknum þar til Hollendingar skoruðu sigurmarkið í blálokin.

Kay Smits var í aðalhlutverki hjá Hollendingum og skoraði 10 mörk og Luc Steins skoraði 7 en Michael Dasez var atkvæðamestur Pólverja með 6 mörk.

Slóvenía og Holland eru nú með 5 stig, Pólland 4 og Tyrkland 3 en Slóvenar og Tyrkir eiga eftir að mætast í fjórðu umferðinni. Hollendingar eiga eftir heimaleik við Pólverja og útileik við Tyrki og tvö stig myndu væntanlega gulltryggja þeim sætið á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert