Litháen lagði Ísrael að velli, 31:28, í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Vilnius í dag en liðin eru með Íslandi í riðli.
Litháar fengu þar með sín fyrstu stig, í sínum þriðja leik, en þetta var annar leikur Ísraela, sem töpuðu með níu mörkum í Portúgal, og þeir eru því áfram stigalausir. Portúgal er með 6 stig eftir fjóra leiki og Ísland 4 stig eftir þrjá leiki.
Ísland á eftir að spila báða leikina við Ísrael og útileikinn við Litháen. Tveir þessara leikja fara fram 29. apríl og 2. maí en ekki er komin dagsetning á útileikinn við Ísrael sem hefur tvívegis verið frestað.
Skirmantas Pleta og Valdas Drabavicius skoruðu sex mörk hvor fyrir Litháa en Yermiyahu Sidi skoraði tólf mörk fyrir Ísraela.