Portúgal varð í kvöld síðasta þjóðin til að tryggja sér sæti í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar með því að vinna dramatískan og ævintýralegan sigur á Frökkum í Montpellier í kvöld, 29:28.
Portúgal og Frakkland voru í baráttu við Króata um tvö sæti í riðlinum í Montpellier um helgina en öll liðin unnu leiki sína við Túnis.
Króatar höfðu sigrað Portúgala 25:24 og Frakkar unnu síðan Króata 30:26. Króatar urðu því að treysta á að Frakkar fengju stig gegn Portúgal, eða þá að Portúgal ynni Frakkland með sex marka mun.
Frakkar voru lengst af með yfirhöndina gegn Portúgal en með ævintýralegum endaspretti náðu Portúgalar að tryggja sér sigurinn í lokin með sigurmarki úr hraðaupphlaupi þegar fjórar sekúndur voru eftir. Frakkar komu boltanum samt í mark Portúgala en þá var búið að flauta leikinn af.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Portúgal keppir í handknattleik á Ólympíuleikum.
Auk Portúgals og Frakklands tryggðu Svíþjóð, Þýskaland, Noregur og Brasilía sér lausu sætin á Ólympíuleikunum en undanriðlunum þremur þar sem tólf þjóðir léku um sex síðustu sætin lauk í dag og kvöld.
Hinar sex þjóðirnar sem höfðu tryggt sér þátttökurétt voru Japanir sem gestgjafar, Danir sem heimsmeistarar, Argentínumenn sem Suður-Ameríkumeistarar, Bareinar sem Asíumeistarar, Spánverjar sem Evrópumeistarar og Egyptar sem Afríkumeistarar.