Brögð í tafli í gær?

Leikmenn Portúgals fagna sigrinum í gær.
Leikmenn Portúgals fagna sigrinum í gær. AFP

Portúgalska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í fyrsta skipti í gær með því að leggja Frakka að velli í Frakklandi á dramatískan hátt, 29:28.

Frakkar voru yfir allan tímann en misstu niður þriggja marka forskot í lokin. Sigurmark Portúgals kom eftir hraðaupphlaup í kjölfar klaufagangs í sóknarleik Frakka, örfáum sekúndum fyrir leikslok.

Með sigri Portúgala varð ljóst að Króatía kæmist ekki á Ólympíuleikana og Hrvoje Horvat, þjálfari Króata, var allt annað en sáttur. Vildu einhverjir meina að Frakkar hafi einfaldlega frekar viljað Portúgala með sér á leikana en Króata. 

„Ég horfði ekki á leik Portúgals og Frakka en mér finnst furðulegt að Frakkar missi niður þriggja marka forskot í lokin, því svona gerist ekki hjá Frökkum. Við unnum Portúgal og Túnis en því miður reyndist það dýrkeypt að tapa á móti Frökkum,“ sagði Horvat við króatíska fjölmiðla. 

Þá hefur leikhlé Guillaume Gille, landsliðsþjálfara Frakka, í lok leiksins vakið athygli en hann virðist blikka Melvyn Richardson. Richardson missir einmitt boltann í sókninni sem fylgir og Portúgal skorar sigurmarkið. 

Misheppnaða sókn Frakka og sigurmark Portúgala má sjá hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert