Steinunn Björnsdóttir verður fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik sem hefur leik í forkeppni HM sem fer fram í Skopje í Norður-Makedóníu um næstu helgi.
Það er handbolti.is sem greindi fyrst frá þessu en íslenska liðið mætir Norður-Makedóníu á föstudaginn kemur, Grikkjum á laugardaginn kemur og svo Litháen á sunnudaginn.
Tvær efstu þjóðir riðilsins komast áfram í umspilsleiki um keppnisrétt á HM á Spáni sem fram fer í desember á þessu ári en umspilsleikirnir fara fram í vor.
Steinunn tekur við fyrirliðabandinu af Karen Knútsdóttur sem gaf ekki kost á sér í verkefnið en Steinunn á að baki 35 A-landsleiki og er samningsbundin Fram í úrvalsdeild kvenna.