Gleðiefni að snúa aftur á völlinn

Stefán Rafn Sigurmannsson spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma …
Stefán Rafn Sigurmannsson spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma í kvöld. Ljósmynd/Haukar

„Það er skemmtilegt fyrir mig að vera kominn aftur á völlinn eftir svona ótrúlega langan tíma, það er gleðiefni, en kannski ekkert rosalegt gleðiefni hvernig við duttum svona niður eftir frábæra byrjun. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða.“

Þetta sagði Stefán Rafn Sigurmannsson, vinstri hornamaður Hauka, í samtali við mbl.is eftir nauman 26:25 sigur gegn Stjörnunni í Olísdeildinni í handknattleik í kvöld. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Hauka frá því hann gekk til liðs við uppeldisfélag sitt að nýju í lok janúar síðastliðins og skoraði sex mörk.

Eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik velgdu Stjörnumenn heimamönnum í Haukum talsvert undir uggum á lokamínútum leiksins.

„Ef ég tala bara fyrir sjálfan mig var ég dauðþreyttur en ég er ánægður. Það er alltaf gott að vinna og fá tvö stig og á heimavelli, það er bara sterkt að sýna það. Þeir voru mjög sprækir og góðir á köflum fannst mér þó að það vantaði Ólaf Bjarka [Ragnarsson] og Tandra [Má Konráðsson], þá stigu hinir bara upp og voru góðir. Við áttum fullt í fangi með þá,“ sagði Stefán Rafn.

Í fyrri hálfleik náðu Haukar mest sjö marka forystu en unnu á endanum aðeins marks sigur. Hvað varð þess valdandi að leikur þeirra datt svona mikið niður?

„Mér fannst við bara ótrúlega slakir sóknarlega, ég held að það hafi verið svona okkar aðalveikleiki. Við vorum staðir og vorum ekki að vinna maður á mann. Sérstaklega í fyrri hálfleik, þá gerðum við átta tæknifeila og það er allt of mikið. Við vorum að kasta boltanum of auðveldlega frá okkur og vorum þá að fá fyrstu bylgju beint í andlitið á okkur og þá er bara erfitt að vera að hlaupa á eftir þeim,“ útskýrði hann.

Stefán Rafn sagði Hauka, sem eru á toppnum í Olísdeildinni, alltaf stefna að því að vinna Íslandsmeistaratitilinn og er spenntur fyrir framhaldinu.

„Það er gaman að vera að detta inn í þetta lið núna. Við erum með mjög góðan hóp en það eru fimm önnur lið í deildinni sem eru með frábæran mannskap þannig að við verðum að hafa okkur alla við ef við ætlum að vera þarna í toppnum. Það eru alltaf viss markmið á Ásvöllum, það vita allir hver þau markmið eru og við munum reyna að keyra á þau og gefa eins mikið í það og við getum og svo sjáum við bara hvað gerist að lokum.

Það er Valur í næsta leik og ég er mjög spenntur að takast á við þá. Það verður hörkuleikur og við megum alla vega ekki tapa svona mörgum boltum og gera svona mikið af klaufamistökum ef við ætlum að ná í stig þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert