Haukar mörðu Stjörnuna

Geir Guðmundsson skýtur að marki Stjörnunnar í kvöld.
Geir Guðmundsson skýtur að marki Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar unnu eins marks sigur gegn nágrönnum sínum í Stjörnunni þegar liðin mættust á Ásvöllum í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld.

Leikurinn fór ansi rólega af stað og var staðan 2:1, Haukum í vil, eftir sjö mínútna leik. Eftir það hertu Haukar tökin og skoruðu næstu þrjú mörk, staðan orðin 5:1 og áttu heimamenn einungis eftir að bæta í. Haukar náðu mest sjö marka forystu í hálfleiknum þegar þeir komust í 12:5 og svo 13:6.

Stjörnumenn fóru þá að taka aðeins við sér og náðu að minnka muninn í fjögur mörk, 14:10 og svo 15:11. Haukar skoruðu hins vegar síðasta mark hálfleiksins og fóru með verðskuldaða fimm marka forystu í leikhlé, 16:11.

Andri Sigmarsson Scheving var í miklu stuði í marki Hauka og varði níu skot, þar af eitt víti, í hálfleiknum. Á móti var enginn, eða því sem næst, hjá Stjörnumönnum. Varði Sigurður Dan Óskarsson aðeins eitt skot í hálfleiknum og Adam Thorstensen ekkert.

Allt annað var að sjá til Stjörnumanna í upphafi síðari hálfleiks. Sigurður Dan fór að verja í bunum og Stjörnumenn skoruðu fyrstu þrjú mörk hálfleiksins og minnkuðu þar með muninn í tvö mörk, 16:14. Haukar svöruðu því með næstu tveimur mörkum en Stjörnumenn voru ekki á því að gefast upp og minnkuðu muninn aftur í tvö mörk, 19:17.

Haukar voru með þriggja marka forystu megnið af síðari hálfleiknum en þegar skammt var eftir náðu Stjörnumenn að minnka muninn niður í eitt mark, 24:23. Haukar náðu að komast í 25:23 en enn gáfust Stjörnumenn ekki upp og minnkuðu muninn í 25:24. Ólafur Ægir Ólafsson skoraði fyrir Hauka og kom þeim aftur í tveggja marka forystu áður en Stjörnumenn skoruðu síðasta mark leiksins. Lokatölur því 26:25.

Vinstri hornamaðurinn knái, Stefán Rafn Sigurmannsson, sneri aftur í lið Hauka eftir að hafa glímt við meiðsli frá því hann gekk til liðs við liðið í lok janúar og skoraði sex mörk. Ólafur Ægir gerði slíkt hið sama hjá Haukum og voru þeir markahæstir heimamanna.

Markahæstur í leiknum var hins vegar Leó Snær Pétursson hjá Stjörnunni, sem skoraði sjö mörk, þar af fjögur úr vítaköstum.

Andri í marki Hauka endaði með 14 varin skot og Sigurður Dan 10, þar af níu í síðari hálfleiknum.

Haukar eru eftir sigurinn áfram á toppi Olísdeildarinnar, með fjögurra stiga forskot á granna sína og erkifjendur í FH.

Stjarnan er áfram í sjöunda sæti deildarinnar.

Haukar 26:25 Stjarnan opna loka
60. mín. Ólafur Ægir Ólafsson (Haukar) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert