Staðfesta komu Selfyssingsins

Elvar Örn Jónsson í leik með íslenska landsliðinu á HM …
Elvar Örn Jónsson í leik með íslenska landsliðinu á HM í Egyptalandi í janúar. AFP

Handknattleikskappinn Elvar Örn Jónsson mun ganga til liðs við þýska fyrstudeildarfélagið Melsungen næsta sumar.

Þetta staðfesti þýska félagið á heimasíðu sinni í dag en Elvar kemur til félagsins frá danska úrvalsdeildarfélaginu Skjern.

Í janúar bárust fréttir af því að Elvar væri á leið til Þýskalands en samningur hans í Danmörku rennur út í sumar.

Elvar skrifar undir tveggja ára samning við Melsungen en þar hittir hann fyrir línumanninn Arnar Frey Arnarsson og landsliðsþjálfarann Guðmundur Þórð Guðmundsson.

Leikstjórnandinn, sem er 23 ára gamall og uppalinn á Selfossi, hélt út í atvinnumennsku eftir tímabilið 2019 eftir að Selfoss varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

Melsungen er í tíunda sæti þýsku 1. deildarinnar með 19 stig eftir sextán spilaða leiki en liðið á fjóra leiki til góða á Bergischer sem er í sjötta sætinu, og jafnframt Evrópusæti, með 24 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert