Stýrir ekki Barein á Ólympíuleikunum

Halldór Jóhann Sigfússon
Halldór Jóhann Sigfússon Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Halldór Jóhann Sigfússon mun ekki stýra karlalandsliði Barein á Ólympíuleikunum í Tókýó. Handknattleikssamband Barein vildi halda Halldóri, með því skilyrði að hann myndi láta af störfum hjá Selfossi.

„Ég var ekki tilbúinn til að fórna mínu starfi á Selfossi en þeir vildu mig í fullt starf og búsettan úti,“ sagði Halldór Jóhann í samtali við RÚV. Halldór stýrir karlaliði Selfoss, ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka. 

Barein tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í fyrsta skipti er liðið vann Asíuforkeppnina fyrir leikina í október 2019, þá undir stjórn Arons Kristjánssonar. Aron hætti með liðið þegar Ólympíuleikunum var frestað um eitt ár.

Þjóðverjinn Michael Roth tók við Aroni en aðeins um mánuði síðar var Halldór tekinn við af Roth. Hann stýrði svo Barein á HM í Egyptalandi í janúar. Undir stjórn Halldórs fór Barein í milliriðla og endaði að lokum í 21. sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert