„Svekkelsi með ósigur, það breytist ekkert“

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. Eggert Jóhannesson

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sína menn þrátt fyrir 25:26 tap gegn toppliði Hauka í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld.

„Fyrstu viðbrögðin eftir að maður tapar eru þau að maður er auðvitað svekktur en ég sé bara hvaða leikmenn voru að spila, ég var með marga nýja. Miðjublokkin með Tandra [Má Konráðsson], hann er náttúrulega mjög mikilvægur og einn besti leikmaðurinn í deildinni, hann er ekki með og Ólafur Bjarki [Ragnarsson] hefur lítið verið með undanfarið. Það var svona stress í mörgum leikmönnum, sem er kannski að vissu leyti eðlilegt þegar þeir eru að mæta í svona leik gegn Haukum, sem eru auðvitað mjög sterkir.

En seinni hálfleikurinn hjá okkur var frábær. Við hefðum alveg getað náð stigi, hvort það hefði verið sanngjarnt veit ég ekki en ég er bara ánægður. Ég held að við höfum búið til ágætisbreidd í kvöld. Það voru margir sem fengu stærri hlutverk og margir sem stóðu sig vel,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is eftir leik í kvöld.

Áðurnefndir Tandri Már og Ólafur Bjarki voru ekki með í leiknum í kvöld og þá ekki Sverrir Eyjólfsson. „Ólafur Bjarki er ekki búinn að vera með núna undanfarið, ég veit ekki hvað hann verður lengi frá, en með Tandra og Sverri þá gerðist það bara að Tandri fékk högg í síðasta leik en var með á æfingu í gær en er bara ekki orðinn nógu góður og Sverrir er pínu tognaður.

Þess vegna þurftum við að púsla saman þannig séð nýju liði. Eins og Hjálmtýr [Alfreðsson], uppalinn Stjörnustrákur sem er fyrirliði í dag, hann var alveg stórkostlegur varnarlega. Þótt ég hafi tapað leiknum þá vann ég helling að því leyti að stækka breiddina í liðinu,“ útskýrði Patrekur.

Hann sagði margt jákvætt sem lið sitt geti tekið með sér í næstu leiki. „Já, það koma ekkert mörg lið hérna á Ásvelli og vinna, ég þekki það nú, ég var hérna þjálfari og veit hversu sterkt félag og öflugt Haukar eru. Þeir eru náttúrulega með þrjá menn í hverri stöðu liggur við, þeir eru búnir að safna góðu liði og það er bara flott.

En ég tek margt með mér úr þessu og það voru margir sem voru að stimpla sig vel inn og ég nefni Hjálmtý, Sigurð [Dan Óskarsson] í markinu í seinni hálfleik, Pétur Árni [Hauksson] var góður, Arnar [Máni Rúnarsson] í vörninni spilaði miklu meira en venjulega.“

Þrátt fyrir að vera ánægður með margt í leik sinna manna sagði Patrekur eitt aldrei breytast í sínu fari: „Svekkelsi með ósigur, það breytist ekkert, maður er alltaf hundsvekktur en ég er mjög ánægður með þennan góða seinni hálfleik og ég fyrirgef mínum mönnum alveg fyrstu 10 mínúturnar, þá var þetta mjög vandræðalegt og mikil taugaveiklun. Það telst að hluta til eðlilegt, að vera að mæta hérna á Ásvelli og vera með sviðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert