Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ekki á því að það hafi verið rétt að dæma vítakast á Vigni Stefánsson á lokasekúndu leiksins, sem leiddi til sigurmarks ÍBV í 28:29 tapi í Olísdeild karla í handknattleik Origo-höllinni að Hlíðarenda í kvöldi.
„Ég er bara fúll. Fúll með frammistöðuna. Við köstuðum þessu bara frá okkur. ÍBV gerði vel og voru klókir, frábærir varnarlega og þvinguðu okkur í lélegar ákvarðanir.
Við erum með rosalega marga tæknifeila bara í seinni hálfleik og hleypum þeim þá í auðveld mörk. Það svona skemmir leikinn. En auðvitað er ég fúll, við leiðum lungann af leiknum og áttum að gera betur,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is eftir leik í kvöld.
Hann sagði þennan fjölda tæknifeila hafa farið með leikinn fyrir Valsmenn, sem voru þremur mörkum yfir í hálfleik. „Það eru þessir tæknifeilar sem fara með þetta, bæði undir lok fyrri hálfleiks þegar við erum komnir fimm mörkum yfir og hleypum þeim inn í leikinn í staðinn fyrir að vera með aðeins betri stöðu í hálfleik.
Svo er bara framhald á því í seinni hálfleik. Við gerum ekki nægilega vel, þetta voru of margir tæknifeilar, það er svona það sem ég tek úr þessu við fyrstu sýn, auðvitað er það eitt og annað en mér fannst það ekki nægilega gott hjá okkur.“
Gabríel Martínez Róbertsson, leikmaður ÍBV, fékk boltann í hægra horninu á lokasekúndunni og stökk inn í teig. Mátu dómararnir það sem svo að Vignir hafi brotið á honum innan teigs og vítakast því dæmt. Spurður um hvort honum hafi fundist það réttur dómur sagði Snorri Steinn:
„Yfirleitt er það þannig þegar ég er spurður um dómarana, þá er einhver ástæða fyrir því, en mér fannst þeir ekki eiga góðan dag alveg eins og við. Þetta gerist auðvitað hratt en fyrir það fyrsta held ég að miðjan hafi verið ólögleg.
Ef þú spyrð mig núna þá fannst mér þetta ekki vera víti. Mér fannst hann sækja þetta og hann gerir það klárlega vel í þröngri stöðu og svo er spurning hvort Vignir gerir of mikið en það er erfitt að dæma um það akkúrat núna.“