Flautumark Hákons Daða tryggði ÍBV sigur gegn Val

Magnús Óli Magnússon í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld.
Magnús Óli Magnússon í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍBV vann magnaðan 29:28 sigur gegn Val í Origo-höllinni að Hlíðarenda í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld. Sigurmark Eyjamanna kom úr vítakasti á lokasekúndunni.

Í upphafi leiks var talsvert jafnræði með liðunum og var staðan 4:4 eftir sjö mínútna leik. Eftir það náðu Valsmenn yfirhöndinni og komust í 6:10 forystu. Heimamenn bættu bara í og náðu mest sex marka forystu í fyrri hálfleiknum, 7:13. Eyjamenn tóku þá aðeins við sér og löguðu stöðuna talsvert með því að minnka muninn í tvö mörk, 12:14. Það voru síðan Valsmenn sem skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiksins og fóru með þriggja marka forystu í leikhlé, 12:15.

Markmenn beggja liða voru afar sterkir í hálfleiknum og vörðu báðir sjö skot, Martin Nagy fyrir Val og Petar Jokanovic fyrir ÍBV. Það sem helst skildi liðin að í fyrri hálfleiknum var góður varnarleikur Valsmanna á meðan Eyjamenn voru oft mjög ráðvilltir í sínum sóknaraðgerðum og töpuðu mörgum boltum.

Eyjamenn mættu sterkari til leiks í síðari hálfleiknum og voru ákveðnari í öllum sínum aðgerðum á meðan Valsmönnum gekk illa að fóta sig í sóknarleiknum, auk þess sem Nagy var ekki að verja mikið. Eyjamenn færðust alltaf nær og náðu loks að jafna metin í 22:22 og komust svo yfir, 23:22, þegar rúmar 12 mínútur voru eftir af leiknum.

Valsmenn tóku þá leikhlé, sem virkaði sem vítamínsprauta fyrir liðið þar sem það skoraði næstu fjögur mörk og var þar með komið með þriggja marka forystu á ný, 23:26. Eyjamenn voru þó ekkert á því að gefast upp og náðu að jafna metin að nýju, 27:27, og náðu svo forystunni, 28:27, þegar skammt lifði leiks. Valsmenn töpuðu svo boltanum á ögurstundu en Eyjamenn gerðu slíkt hið sama og jöfnuðu Valsmenn þegar örfáar sekúndur voru eftir.

Eyjamenn ruku hins vegar í sókn, komu boltanum í hægra hornið þar sem vítakast var dæmt á lokasekúndunni. Hákon Daði Styrmisson skoraði úr því og Eyjamenn fóru því með 29:28 sigur af hólmi, ótrúlegar lokasekúndur!

Hákon Daði, markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar, var einu sinni sem áður markahæstur í leiknum og skoraði 10 mörk að þessu sinni, fimm þeirra úr vítaköstum.

Í liði Vals var Magnús Óli Magnússon markahæstur með sex mörk.

Markvarslan minnkaði talsvert í síðari hálfleiknum og varði Nagy aðeins tvö skot til viðbótar í honum, samtals 9 skot. Jokanovic gerði slíkt hið sama en varamarkvörður ÍBV, Björn Viðar Björnsson, kom inn á lokamínútunum og varði þrjú skot á mikilvægum augnablikum.

Valur er eftir leikinn áfram í þriðja sæti Olísdeildarinnar en gæti misst Selfoss upp fyrir sig síðar í kvöld.

ÍBV fer hins vegar upp um tvö sæti og er nú í sjöunda sæti deildarinnar.

Valur 28:29 ÍBV opna loka
60. mín. ÍBV tekur leikhlé Eyjamenn taka leikhlé.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert