Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi handknattleiksþjálfaranum Alfreð Gíslasyni stuðningsyfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.
Alfreð, sem er þjálfari þýska landsliðsins, birti í gær hótunarbréf sem honum barst í pósti á samfélagsmiðlinum Instagram.
Bréfið var nafnlaust en sendandinn lýsti þar yfir óánægju sinni með þjálfarann og þá staðreynd að hann væri ekki borinn og barnfæddur í Þýskalandi.
„Landsliðsþjálfarinn Alfreð Gíslason er góður vinur og ég stend þétt við bakið á honum á þessum tímum,“ skrifaði forsetinn á Twitter.
„Þjóðverjar eru heppnir að vera með handboltasnilling eins og Alfreð við stjórnvölinn hjá sér.
Við erum ánægð með samstöðu þýska handknattleikssambandsins í málinu og sendum góðar kveðjur frá Íslandi,“ bætti forsetinn við.
Bundestrainer Alfreð #Gislason ist ein guter Freund und ich unterstütze seine Familie und ihn in dieser Zeit. 🇩🇪 kann sich glücklich schätzen, dieses Handball-Genie in seinen Reihen zu haben. Wir begrüßen es, dass @DHB_Teams seine Solidarität gezeigt hat. Freundliche Grüße aus 🇮🇸
— President of Iceland (@PresidentISL) March 17, 2021