Handknattleikskonan Hildigunnur Einarsdóttir snýr heim úr atvinnumennsku næsta sumar og mun ganga til liðs við Val.
Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en hún skrifaði undir þriggja ára samning á Hlíðarenda.
Línukonan þekkir vel til hjá Val eftir að hafa leikið með liðinu frá 2006 til ársins 2012 áður en hún hélt í atvinnumennsku.
Hún lék með Tertnes í Noregi og Heid í Svíþjóð áður en hún hélt til Þýskalands þar sem hún hefur leikið undanfarin sex ár, að undanskildu einu tímabili í Austurríki þar sem hún lék með Hypo Niederösterreich.
Í Þýskalandi lék hún með Koblenz, Leipzig, Borussia Dortmund og nú síðast Bayer Leverkusen.
„Ég er rosa spennt að koma heim í Val,“ sagði Hildigunnur í samtali við heimasíðu Vals.
„Ég er búin að vera 9 ár úti og finnst núna vera rétti tíminn til að koma heim og byrja að vinna og koma heim til fjölskyldunnar.
Ég veit að ég mun sakna boltans hérna úti en ég er það spennt að flytja til Íslands að ég veit að ákvörðunin er rétt.
Ég er mjög ánægð að geta farið heim í Val og klárað ferilinn minn þar,” bætti Hildigunnur við.