Öflug liðsheild færði Aftureldingu sigur á Selfossi

Einar Ingi Hrafnsson úr Aftureldingu og Magnús Öder Einarsson frá …
Einar Ingi Hrafnsson úr Aftureldingu og Magnús Öder Einarsson frá Selfossi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afturelding fór uppfyrir Selfoss á töflunni með því að sigra þá vínrauðu 26:23 í Olísdeild karla í handbolta, á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar áttu virkilega erfitt uppdráttar framan af og skoruðu aðeins tvö mörk á fyrstu tólf mínútunum. Afturelding komst í 1:5 í upphafi leiks en þá tóku Selfyssingar leikhlé og komu sér fljótlega inn í leikinn eftir það og minnkuðu muninn í eitt mark. 

Selfoss jafnaði 11:11 þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, mark sem var bæði rándýrt og glæsilegt. Markaskorarinn Hannes Höskuldsson lenti illa og fór meiddur af velli. Selfoss komst yfir í kjölfarið en Afturelding skoraði tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og leiddi 14:13 í leikhléi.

Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en þá kom góður kafli hjá Aftureldingu sem skoraði fjögur mörk í röð og breytti stöðunni í 21:17. Gestirnir náðu fimm marka forskoti í kjölfarið, voru hreyfanlegir og flottir í vörninni og Selfyssingar fundu hvergi smugu. Margar sóknir Selfyssinga voru ráðleysislegar þar sem enginn virtist geta tekið af skarið. Fyrirliðinn Hergeir Grímsson reyndi að sýna gott fordæmi í sókninni en félagar hans fylgdu ekki á eftir.

Selfoss reyndi mikið að spila sjö á sex á lokakaflanum en það kom ekkert út úr því og tapaði boltar skiluðu Aftureldingu auðveldum skotum í autt Selfossmarkið. Selfoss tapaði níu boltum í seinni hálfleik og liðið var virkilega ósamstillt. Gestirnir úr Mosfellsbæ nutu sín hins vegar vel á parketinu á Selfossi og þurftu reyndar ekki neinn glansleik til þess að landa sigrinum.

Hergeir Grímsson var markahæstur hjá Selfyssingum með 6 mörk og Alexander Egan skoraði 5. Annars var risið ekki hátt á Selfyssingum í sókninni. Tryggvi Þórisson var góður í vörninni en besti maður Selfyssinga var hins vegar markvörðurinn Vilius Rasimas sem varði 22/1 skot.

Hjá Aftureldingu var Þorsteinn Gauti Hjálmarsson markahæstur með 7 mörk og Bergvin Þór Gíslason skoraði 6. Þeir héldu uppi sóknarleik Aftureldingar í fyrri hálfleik og í seinni hálfleiknum skilaði Blær Hinriksson mikilvægum mörkum og stoðsendingum. Brynjar Sigurjónsson kom vel inn í leikinn í seinni hálfleik og varði 8 skot en Bjarki Snær Jónsson 6 í fyrri hálfleik. Annars er einfaldast að skrifa þennan sigur á liðsheildina hjá Aftureldingu.

Mbl.is var í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld og má skoða leiklýsinguna hér að neðan.

Selfoss 23:26 Afturelding opna loka
60. mín. Hergeir Grímsson (Selfoss) á skot í slá Selfoss heldur boltanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert