Kristianstad byrjaði úrslitakeppnina um sænska meistaratitilinn í handknattleik með miklum látum í kvöld þegar liðið vann stórsigur á Malmö á útivelli, 32:22.
Malmö endaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar en Kristianstad í sjötta sæti en það var ekki að sjá á leiknum í kvöld.
Kristianstad var með yfirburðastöðu í hálfleik, 15:7, og var með leikinn í hendi sér eftir það. Mest munaði ellefu mörkum í seinni hálfleiknum.
Ólafur Guðmundsson var næstmarkahæsti leikmaður Kristianstad í kvöld með 6 mörk en Markus Olsson skoraði 7. Teitur Örn Einarsson lék ekki með Kristianstad í kvöld.
Liðin mætast næst á laugardaginn en þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslitin.