Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var skiljanlega ánægður með 29:28 sigur sinna manna gegn Val í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld. Eftir að hafa verið undir stóran hluta leiksins komu Eyjamenn til baka og skoruðu að lokum sigurmarkið á lokasekúndu leiksins.
„Ég er fyrst og fremst mjög stoltur af liðinu. Við lendum í því nokkrum sinnum í þessum leik að við þurfum að vinna okkur til baka og gerum það alveg snilldarlega, og þá sérstaklega á lokakaflanum. Við sýnum gamla takta varnarlega og fáum flotta vörslu frá báðum markvörðunum,” sagði Kristinn í samtali mbl.is að leik loknum.
Eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik mættu Eyjamenn ákveðnari og öruggari til leiks í þeim síðari. Hverju breytti Kristinn í hálfleik?
„Við töluðum fyrst og fremst um það að halda áfram að reyna að keyra í bakið á þeim. Við áttum í erfiðleikum sóknarlega og þá vildum við reyna að skora ódýr mörk upp völlinn og svo kannski líka að vera aðeins þolinmóðir þegar við þurftum að stilla upp í sókn.
Við vorum svolítið æstir á boltann í fyrri hálfleik og gerðum þeim lífið auðvelt og þá ertu alltaf í vondum málum. En við náðum að laga það og fáum nokkrar frábærar varnir og Björn [Viðar Björnsson markvörður] á frábæra innkomu. Liðið sem heild skilar þessum frábæra sigri,“ sagði hann.
Að síðustu sagði Kristinn markmið liðsins í framhaldinu vera einföld: „Bara fyrst og fremst að skila sigrum, skila stigum, það er aðalatriðið í þessu.“