Sigvaldi í bikarúrslitin - rautt á Dujshebaev

Sigvaldi Björn Guðjónsson.
Sigvaldi Björn Guðjónsson. AFP

Sigvaldi Björn Guðjónsson er kominn í úrslitaleik pólsku bikarkeppninnar í handknattleik ásamt samherjum sínum í Kielce.

Kielce vann Wisla Plock í undanúrslitum keppninnar á heimavelli í kvöld, 29:27, og mætir Tarnów í úrslitaleiknum.

Sigvaldi skoraði þrjú mörk fyrir Kielce í kvöld en Haukur Þrastarson, sem kom til félagsins frá Selfossi í sumar, missir alveg af þessu tímabili eftir að hafa slitið krossband í hné í haust.

Talsverður hiti var í leiknum og hinn kunni þjálfari Kielce, Talant Dujshebaev, fékk rauða spjaldið í fyrri hálfleik fyrir kröftug mótmæli eftir að yngri sonur hans, Daniel Dujshebaev, fór meiddur af velli.

Flestir litu á leikinn í kvöld sem hinn eiginlega bikarúrslitaleik. Wisla er eitt fárra liða sem veita Kielce einhverja keppni í Póllandi en Tarnów hefur komið mjög óvart í bikarnum. Liðið er í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar og ætti ekki að vera mikil fyrirstaða fyrir Sigvalda og félaga hans sem hafa unnið alla leiki í Póllandi í vetur, í deild og bikar, og urðu í þriðja sæti í sínum riðli í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert