Þrír íslenskir landsliðsmenn í handknattleik áttu stóran þátt í sigrum sinna liða í Þýskalandi í kvöld.
Magdeburg sigraði Hannover-Burgdorf á útivelli, 29:27, þar sem Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson fimm. Staðan var 26:26 þegar stutt var eftir en þá skoruðu Gísli og Ómar sitt markið hvor fyrir Magdeburg og það gerði út um leikinn.
Magdeburg komst þar með í annað sæti deildarinnar, fór upp fyrir Kiel og er með 30 stig, en Flensburg er á toppnum með 32 stig.
Bjarki Már Elísson skoraði átta mörk fyrir Lemgo sem vann góðan heimasigur á Leipzig, 28:23. Lemgo er í tólfta sæti af tuttugu liðum með 20 stig.
Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen sigruðu Ludwigshafen 31:27 á heimavelli. Ýmir skoraði ekki í leiknum. Löwen er í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig.