Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik vann góðan 31:19-sigur á Grikklandi í öðrum leik sínum í undankeppni HM kvenna í handknattleik í Skopje í Norður-Makedóníu í dag. Ísland svaraði því tapinu gegn heimakonum í gær ansi vel.
Norður-Makedónía reyndist of stór biti fyrir Ísland í gær sem tapaði leiknum 24:17 en annað var uppi á teningnum gegn liði Grikkja í dag. Íslenska liðið var bara einu sinni undir í leiknum, í stöðunni 1:2 á fjórðu mínútu. Rut Jónsdóttir var drjúg í fyrri hálfleik, skoraði sex mörk, þar af fjögur úr vítum, og þá var Elín Jóna Þorsteinsdóttir öflug í markinu, varði fimm skot fyrir hlé. Staðan var 15:7 í hálfleik, Íslandi í vil.
Lítið var svo gefið eftir í síðari hálfleik og varð munurinn mestur 12 mörk á liðunum. Rut varð markahæst með sjö mörk úr átta skotum en næstar komu þær Ásdís Guðmundsdóttir, Sigríður Hauksdóttir, Lovísa Thompson og Ragnheiður Júlíusdóttir, allar með fjögur mörk. Frábær frammistaða íslenska liðsins og það í fjarveru fyrirliðans en Steinunn Björnsdóttir meiddist í leiknum í gær og verður ekki með á morgun heldur.
Lokaleikurinn í riðlinum er á morgun, gegn Litháen, og verður það hreinlega úrslitaleikur um hvort Ísland komist áfram í umspil um laust sæti á HM. Tvö efstu liðin fara þangað en heimakonur eru efstar með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína og eiga Grikki í lokaleiknum. Litháen og Ísland eru bæði með tvö stig fyrir viðureign sína á morgun.