Ætluðum að klára þetta með stæl

Rut Jónsdóttir sækir að varnarmönnum Litháen í Skopje í kvöld.
Rut Jónsdóttir sækir að varnarmönnum Litháen í Skopje í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Það er mikil gleði í hópnum eftir þennan sigur enda náðum við þeim markmiðum sem við settum okkur,“ sagði Rut Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is í eftir 33:23-sigur íslenska liðsins gegn Litháen í lokaleik sínum í 2. riðli undankeppni HM í Skopje í Norður-Makedóníu í kvöld.

Ísland er komið áfram í umspil um laust sæti á HM 2021 sem fram fer í Katar í desember en íslenska liðið hafnaði í öðru sæti riðilsins.

Umspilsleikirnir fara fram 16. eða 17. apríl og 20. eða 21. apríl en leikið verður heima og heiman.

Dregið verður í umspilið 22. mars en Ísland verður í neðri styrkleikaflokki þegar drátturinn fer fram og getur mætt liðum á borð við Tékkland, Þýskaland, Ungverjaland, Svartfjallaland, Pólland, Rúmeníu, Rússland, Serbíu, Slóveníu eða Svíþjóð.

„Það var virkilega gaman að sjá  alla leikmenn liðsins taka þátt í lokaleikjunum gegn Grikklandi og Litháen. Við þjöppuðum okkur vel saman eftir tapið gegn Norður-Makedóníu enda var það mikið áfall fyrir okkur að missa Steinunni.

Það gaf okkur auka hvatningu farandi inn í leikina tvo gegn Grikkjum og Litháen og við vorum allar samstíga í að gera vel. Fyrir fram átti ég von á erfiðari leikjum en að sama skapi þá mættum við mjög öflugar til leiks, bæði í gær og í dag,“ bætti Rut við.

Íslenska liðið fagnaði vel og innilega í leikslok.
Íslenska liðið fagnaði vel og innilega í leikslok. Ljósmynd/Robert Spasovski

Stolt af ungu stelpunum

Rut, sem er á meðal reynslumestu leikmanna liðsins, átti góðan leik í kvöld og skoraði fjögur mörk.

„Það var orðið ansi langt síðan við spiluðum síðast saman og það var smá stress í maganum fyrir þessa leiki. Allir í kringum liðið eiga hrós skilið því það komu allir inn með þvílíkan kraft og ég er mjög stolt af ungu stelpunum í liðinu sem voru frábærar.

Við ætluðum okkur að klára þessa undankeppni með stæl og það tókst. Umspilið leggst svo bara vel í mig og við vitum auðvitað ekkert hvaða liði við erum að fara mæta en vonandi verðum við bara heppnar með drátt.

Markmiðið er að sjálfsögðu að komast á HM og ég er spennt að sjá hvaða liði við mætum,“ bætti Rut við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert