Afturelding vann 30:27-sigur á Gróttu í fjörugum leik í Mosfellsbænum í 15. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag. Með sigrinum fóru heimamenn upp að hlið FH í öðru sæti deildarinnar, bæði lið eru með 19 stig.
Gróttu mistókst hins vegar að lyfta sér enn betur frá fallsvæðinu eftir að Þór frá Akureyri tapaði fyrr í dag. Grótta er með tíu stig í 10. sætinu, fjórum stigum á undan Þórsurum. Staðan var 13:12 í hálfleik, Aftureldingu í vil, en heimamenn náðu mest fjögurra marka forystu eftir hlé. Blær Hinriksson skoraði sex mörk úr sjö skotum fyrir Aftureldingu og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var einnig með sex mörk en úr 11 skotum. Birgir Steinn Jónsson var markahæstur Gróttumanna með níu mörk.