Ísland í umspil eftir tíu marka sigur

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik er komið áfram í umspil um laust sæti á HM 2021 eftir öruggan tíu marka sigur gegn  Litháen í lokaleik sínum í 2. riðli undankeppninar í A1 Arena í Skopje í Norður-Makedóníu í kvöld.

Leiknum lauk me 33:23-sigri Íslands en Lovísa Thompson var markahæst í íslenska liðinu með sex mörk.

Jafnræði var með liðunum fyrstu fimm mínútur leiksins en eftir það tók íslenska liðið öll völd á vellinum.

Ísland skoraði þrjú mörk í röð, komst í 5:2 með marki frá Rut Jónsdóttur en Silvija Mackonyte minnkaði muninn í 3:5-eftir tíu mínútna leik.

Þá kom frábær leikkafli hjá íslenska liðinu sem skoraði sjö mörk í röð á meðan Litháar kostuðu boltanum frá í hverri sókninni á fætur annarri.

Íslenska liðið náði mest ellefu marka forskoti í fyrri hálfleik en Litháen tókst að laga stöðuna og var munurinn á liðunum tíu mörk í háflleik, 19:9, Íslandi í vil.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og var munurinn á liðunum fjórtán mörk þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka, 27:13.

Litháar komu til baka á síðasta korterinu, minnkuðu muninn í tíu mörk, og lokatölur því 33:23, Íslandi í vil.

Birna Berg Haraldsdóttir, Rut Jónsdóttir, Tinna Sól Björgvinsdóttir,  Sigríður Hauksdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir skoruðu fjögur mörk hver.

Þá varði Elín Jóna Þorsteinsdóttir átta skot í marki íslenska liðsins, þar af eitt vítakast.

Ísland endar í öðru sæti 2. riðils undankeppninnar og er komið áfram í umspil um laust sæti á HM 2021 sem fram fer á Spáni í desember.

Umspilsleikirnir fara fram 16. eða 17. apríl og 20. eða 21. apríl en leikið verður heima og heiman.

Dregið verður í umspilið 22. mars en Ísland verður í neðri styrkleikaflokki þegar drátturinn fer fram og getur mætt liðum á borð við Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Svartfjallalandi, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Serbíu, Slóveníu eða Svíþjóð.

Litháen 23:33 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með öruggum tíu marka sigri íslenska liðsins sem var aldrei í hættu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert