Naumur sigur FH á Selfossi

Einar Rafn Eiðsson skoraði níu mörk fyrir FH í kvöld.
Einar Rafn Eiðsson skoraði níu mörk fyrir FH í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Rafn Eiðsson átti stórleik fyrir FH þegar liðið heimsótti Selfoss í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Hleðsluhöllina á Selfoss í kvöld.

Leiknum lauk með 28:27-sigri FH-inga en Einar Rafn skoraði níu mörk og var markahæsti leikmaður vallarins.

Selfyssingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust fjórum mörkum yfir eftir tíu mínútna leik, 7:3. FH-ingar gáfust ekki upp og tókst að jafna metin í 11:11 og þannig var staðan í hálfleik.

FH-ingar náðu fjögurra marka forskoti snemma í síðari hálfleik, 16:12, og voru með yfirhöndina í leiknum allt þangað til fimm mínútur voru til leiksloka þegar Selfyssingum tókst að minnka muninn í eitt mark þegar fimm mínútur voru til leiksloka, 24:25.

FH-ingar voru hins vegar sterkari á lokakaflanum, skoruðu þrjú mörk gegn tveimur mörkum Selfoss, og fögnuðu sigri í leikslok.

Þá átti Phil Döhler stórleik í marki FH-inga, var með 44% markvörslu og tuttugu skot varin.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með átta mörk og Hergeir Grímsson skoraði sjö mörk.

FH er með 21 stig í öðru sæti deildarinnar og fjórum stigum minna en topplið Hauka. Selfoss er í fimmta sætinu með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert